Að borgin gæti mannréttinda útigangsfólks og fíkla.
Að undanförnu hefur talsverð umræða verið um vanda ungmenna, ekki síst ungra stúlkna, í neyslu. Núna er staðan sú að þessi ungmenni eiga einna helst höfði að halla hjá eldri vímuefnasjúklingum. Það er að sjálfsögðu óverjandi ástand. Fyrir allmörgum árum rak Rauði krossinn griðastað fyrir ungmenni, Rauðakrosshúsið. Þangað gátu húsvillt ungmenni leitað eftir húsaskjóli og stuðningi. "Þið eruð einu vinir mínir, fyrir utan fíklana" skrifaði einn strákurinn í gestabókina. Endurvekjum þessa þjónustu.
Stefna umburðarleysis og útskúfunar hefur beðið algjört skipbrot á Íslandi. Neysla ólöglegra vímuefna virðist ekki hafa minnkað, en hún hefur orðið harðari og háskalegri. Við höfum komið okkur upp afar slæmum sprautukúltúr og kornungt fólk virðist telja eðlilegt að nota sprautur og nálar. Sú skelfilega öfugþróun hefur gerst tiltölulega hratt, en áður var sprautunotkun nánast einskorðuð við miðaldra, langt leidda einstaklinga. Ungmenni deyja af ofskömmtun ópíumskyldra lyfja á borð við morfín.
Sjá bloggfærslu mína á WWW.DV.is
Það þarf f.l úrræði varðandi gistingu og læknisaðstoð næturgisting dugar bara hluta af þessum einstaklingum.
Sammála Þórgný í flestu. Annað sem Pétur athugar ekki er að dagsetur á Eyjaslóð annast amk hluta þessarar umönnnar
Stöðvum óþörf dauðsföll vímuefnasjúklinga
Gott hjá þér Jóhann ég er nánast viss um að drengurinn er veikur og varla svaravert..Því miður..En ég er hjartanlega sammála þér Jóhann Símonarson.
vertu málsvari
Gamalt máltæki segir að of seint sé að iðrast eftir dauðann. Það er lítil stoð í harmagráti eftir að útigangsfólk og vímuefnasjúklingar eru látnir á götunni. Forsenda betra lífs er að halda lífi og siðuðu samfélagi ber skylda til að styðja fólk til sjálfshjálpar og sjálfsvirðingar. "Low threshold" úrræði; skjólshús þar sem veitt er hreinlætisaðstaða, heilsugæsla og húsaskjól fyrir fólk í neyslu eru skref í átt að frekari bata. Útskúfun er banvæn samfélagspólitík. Reynsla síðustu ára sannar það.
HIV smitfaraldur geysar meðal sprautufólks - fréttir herma að þrettán einstaklingar hafi greinst á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Allt árið í fyrra voru þeir tíu. Til samanburðar má nefna að einn sprautunotandi greindist með HIV smit í Hollandi á síðasta ári. Ef ástandið í Hollandi væri í sama fari og á Íslandi hefðu HIV greiningar sprautunotenda átt að vera fimm- til sexhundruð í fyrra. Íslensk stjórnvöld borgar og ríkis hafa of lengi fylgt útskúfunar- og refsihyggju. Skaðaminnkun er betri leið
Komum málinu til Mannréttindaráðs Rvk.
Styðjum mannréttindabaráttu útskúfaðra
Bæta við athugasemd
Embætti umboðsmanns utangarðsfólks er kannski full formlegur titill - enda býður slíkt hættunni á því að langt verði á milli "embættismannsins" og skjólstæðinganna. Það að einhver hafi með höndum að svara fjölmiðlum eða vekja athygli á aðstæðum utangarðsfólks er aftur á móti brýnt og að sjálfræði viðkomandi aðila sé tryggt. Oft verður fátt um svör í borgarkerfinu um hvað sé að gerast í málefnum hópsins þegar fjölmiðlar leita til Velferðarráðs eða Velferðarsviðs. Stjórnmálamennirnir njóta þess ekki alltaf að hafa bæði innsýn og getu til að fást við vanda hópsins. Sjálfstæði gagnvart þessum aðilum er kosturinn við hagsmunasamtök, en eitt er heimilisleysi, annað fíkn og kannski allt annað að vilja bjarga aðstandanda úr einhverjum tilteknum aðstæðum. Velferðarsvið sinnir hinu fyrsta (félagsráðgjafar), SÁÁ og aðrar stofnanir fíknivanda (meðferðaraðilar). Eitt af mögulegum hlutverkum hlutlauss aðila (hagsmunasamtaka eða upplýsingafulltrúa) sem borgin styddi við bakið á gæti verið það að virkja flæði á milli úrræða og sjá til þess að þeir sem hafa ekki getu eða vilja til að leita sér hjálpar viti samt af því sem er í boði. Skaðaminnkandi úrræði viðhalda tengslum við þann hóp sem er í mestri hættu á að tapa öllum tengslum við "eðlilegt" samfélag sökum fíknar og oftast fátæktar sem fylgir. Um það erum við Pétur hjartanlega sammála - eins og svo margt annað ef að er gáð. Ég nefndi að hluti starfslýsingar tengdu embætti Miðborgarprests hefði kveðið á um að vera málsvari þeirra sem minna mega sín með einhverjum hætti. Réttindafulltrúar utangarðsfólks eru auðvitað flestir þeir sem vinna með hópnum með hlýju hjarta - hvort sem um launuð störf er að ræða eða sjálfboðin - en formlegan fulltrúa mætti þó hafa á vegum borgarinnar, hvort sem væri félagsráðgjafa eða prest, sem þeir sem eru utangarðs treystu fyrir sínum málum. Þannig gæti "stuðningur" borgarinnar við hagsmunasamtökin sem Pétur sér fyrir sér, falist í starfsemi viðkomandi aðila fyrir hin nefndu samtök. Þá má eðlilega sjá fyrir sér að Rauði Krossinn og/eða Geðhjálp kæmu að "rekstri" slíkrar starfsemi. Hópurinn "fíklar og utangarðsfólk" er kannski ekki líklegur til að flykkjast á fund hagsmunasamtakanna - en leyti margir einstaklingar til sama aðila má vissulega segja að sé viðkomandi samviskusamur í starfi, hljóti hann/hún að geta talað fyrir ákveðinn "hóp". Í dag eru til aðilar sem stór hluti utangarðsfólks þekkir vegna starfa þeirra hjá Reykjavíkurborg, Samhjálp eða Hjálpræðishernum - og má nefna "Mömmu" á Eyjaslóð til dæmis - en þessir aðilar eru fyrst og fremst að þjónusta um nauðþurftir og hafa sjaldnast umboð eða umframtíma til að "berjast fyrir réttindum" þeirra útskúfuðu - eins og Pétur réttilega nefndi þau. Réttarins til mannlegrar reisnar afsala þau sér ekki þó hin mannlega reisn sé hulin jafnvel þeim sjálfum í lægingunni. Borgaryfirvöld eiga að standa vörð um að allir borgarbúar séu meðvitaðir um möguleika sína og réttinn til mannlegrar reisnar. Til þess að hinir brotnu einstaklingar sem lenda utangarðs þrátt fyrir úrræði velferðarkerfisins upplifi samtakamátt sinn og verði færir um að krefjast þessara mannréttinda sem Pétur auglýsir eftir, þá þurfa þeir skurðpunkt, kjarna eða tengslanet sem gerir þeim ljóst að þeir eru hluti af heild sem - þrátt fyrir að vera utangarðs - hefur mátt.
Styðjum sjúka til sjálfshjálpar og lífsvilja
Fíklar og alkaholistar sem búa í Gistiskýli, Konukoti eða heimilum sem sett eru upp fyrir heimilislausa fíkla eldast og fá sjúkdóma eins og annað fólk. Ég kalla eftir aukinni þjónustu við þetta fólk, mikið er orðið að úrræðum en ég vil sjá okkur gera betur inn í þeim úrræðum sem þegar eru til staðar sambærileg sambýlum sem sett eru upp fyrir geðsjúka. Það vantar lög um þennan málaflokk eins og lög um málefni fatlaða og aldraðra.
Lögin eru til, en þau eru fremur til skaða en gagns. Þar á ég við fíkniefnalöggjöfina - steinaldarfyrirbæri sem þarf að lagfæra. Vandinn er sá að verst stadda fólkið er haldið "ólöglegum sjúkdómi" - fíkn í vímuefni sem ekki falla kemískum McCarthyistum í geð.
Afglæpum neyðina
En þeir HAFA aðgang að niðurgreiddri heilbrigðisþjónustu, eins og við hin. Það væri eitthvað sagt ef þessarri þjónustu væri síðan troðið upp á þá.
mig minnir að maður hafi orðið úti vegna þess að hann örmagnaðist á leið til eða frá granda eyjaslóð og enginn tók eftir honum því svæðið er lítt byggt lítil umferð um nætur, betra að fíklar búi í þéttri byggð.
Rétt lolo. Mér fannst lögreglan óþarflega fljót að fullyrða að ekkert væri glæpsamlegt við það dauðsfall. Að mínu viti var það samfélagsglæpur og tel tímabært að afstýra fleiri slíkum.
Einhverstaðar verða vondir að vera er sagt.. ég tel samt að hjálpin snúist fyrst um þurrkun og sálfræðihjálp svo. En ég er enginn spesjalisti,
Þakka þér fyrir ábendinguna Þórgnýr. Það má örugglega setja þessa hugsun fram með skýrari hætti en ég gerði.
Fyrsta skrefið er að bjarga mannslífum og það gerum við með því að virða það prinsipp að allir, einnig óreglumenn, eigi rétt á bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu. Það prinsipp er mér vitanlega hvergi skilyrt með kröfu um reglusamt líferni.
Ég fellst á þetta. Ég er þó þeirrar skoðunar að til að málefnið nái athygli og dreifingu þá þurfi að breyta titlinum og lýsingunni til að endurspegla þetta sem þú varst að segja mér hér síðast. Eins og það stendur þá er það of opið og óaugljóst til að gagnast til þess að útskýra hvað þú í raun og veru átt við..
Ég er að tala um það sem kallast "low threshold" úrræði, þ.e. neyðarathvörf þar sem hinir útskúfuðu geta leitað skjóls. Þar þarf að vera hreinlætisaðstaða og fordómalaus heilsugæsla og aðhlynning. Það þarf held ég ekki að troða slíkri þjónustu uppá fólk sem sefur undir tré á Klambratúni, eins og vinafólk mitt gerði lengi vetrar fyrir nokkrum árum.
Einhverstaðar verða vondir að vera er sagt.. ég tel samt að hjálpin snúist fyrst um þurrkun og sálfræðihjálp svo. En ég er enginn spesjalisti,
Allavega titilinn, það er þetta með grunnþjónustuna, „Low threshold“ úrræði, hreinlætisaðstaða, grunnúrræði til að draga úr sýkingarhættu, aðgengi að hjálp ef þeir kjósa svo... etc. „Neyðarathvarf fyrir fíkla með low threshold úrræði“ væri kannski lýsandi titill? Getur þú breytt þessu?
Í mínum huga er þetta fyrst og síðast spurning um mannréttindi. Óheimilt er að mismuna sjúklingum vegna kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ég hygg að þjóðarsátt ríki um þá afstöðu að alkóhólismi sé sjúkdómur, en þrátt fyrir það eru önnur afbrigði fíknisjúkdóma talin glæpsamleg. Hraktasti hluti sjúklingahópsins er haldinn "ólöglegum sjúkdómum", svo fráleitt sem það hugtak er, og lögreglunni er falið að annast hann og kynna fyrir almenningi. Ég íhuga að endurbæta færsluna og/eða titilinn - eða bæta við frekari röksemdafærslu.
Styðjum mannúð og umburðarlyndi.
Útskúfun er banvæn samfélagsstefna
Útskúfun er banvæn samfélagsstefna
Takk Helga. Vartu búinn að lesa bloggfærslu Halls Magnússonar frá í kvöld. Hún er einfaldlega frábær. Skora á alla að deila henni út um allt - vegna málefnisins´og vegna þess að hann er með tengil á Betri Reykjavík. Það eiga einfaldlega allir að skrá sig hér og vinna síðan gagnlegum tillögum brautargengi í félagi við annað fólk. http://blog.eyjan.is/hallurm/2011/10/26/mannrettindi-utigangsfolks/
Styðjum mannréttindabaráttu útskúfaðra
Kæri Jóhann Páll. Vildi óska þess að ég hefði séð innleggið þitt fyrr, því núna hef ég takmarkaðan tíma til að bregðast við því sem þú heldur fram. Sjálfur starfa ég hjá Reykjavíkurborg við umönnun þessa hóps. Það er rangt að það vanti gistiskýli fyrir karla og það er ónákvæmt að geta þess ekki að til eru heimili fyrir þá sem hafa verið í þessari stöðu lengi, bæði karlar og konur. Það er óraunhæft að kalla eftir því að lögreglan takist á við þetta "vandamál" með einhverjum skýrum lögum um hvort eða hversu drukkinn einstaklingur má vera til að vera á almannafæri. Þú segir að vald og umsjón eigi að vera hjá fagaðilum. SÁÁ er vissulega einn þeirra aðila sem eru hvað mikilvægastir þegar fíkillinn finnur loks tilgang í því að hætta, eða vill reyna, en þau mætu samtök reka þó enga neyðarþjónustu á þeim nótum sem við Pétur erum að auglýsa eftir. Og SÁÁ getur ekki látið þá hætta drekka sem ekki vilja hætta. Vald og umsjón er því í dag fyrst og fremst hjá öðrum fagaðilum - og þar er skaðaminnkun "ný leið" og mjög mikilvæg. Við erum ekki bara að tala um "gamaldags-róna" sem ætti að setja í hverfisteininn ef þeir eru drukknir á almannafæri - eins og andi tilsvars þíns virðist ganga út frá. Hafi fagaðilar það sem þú kallar "viðunandi húsnæði" - heldur þú þá að vandamálið verði úr sögunni? Hvaða vandamál - leyfi ég mér jafnvel að spyrja. Veikindi fólksins læknast ekki með því einu að borgararnir verði ekki fyrir truflunum af því. Mannréttindi eru hugtak sem nær einnig til þeirra veiku sem þú kallar eftir að sé hjálpað. Reglur og lög hjálpa þeim ekki - nema það séu þær reglur og lög sem tryggja þeim réttinn til mannlegrar reisnar þrátt fyrir að passa ekki inn í þá skilgreiningu að "hægt sé að hjálpa þeim" - því sú hjálp sem þú gefur í skyn að þau vanti er bara ein; sú hjálp er að hætta að drekka eða neyta þeirra eiturlyfja sem það er háð. Það er forræðishyggja - ekki það að "flækja málið" með umboðsmanni eða álíka. Umboðsmaður er ekki sá sem hefur vit fyrir þeim sem hann vinnur fyrir - heldur sá sem sinnir því sem þeir sem hann er ráðinn til að starfa fyrir óska eftir. Séu það hreinar sprautunálar til að hamla útbreiðslu sjúkdóma sem kosta heilbrigðiskerfið formúgur - þá vinnur umboðsmaður fíklanna að því að allir fíklar viti af aðgengi að ókeypis sprautunálum (s.s. hann þarf ekki að vera með vasana fulla af þeim hverja stund). Ég vona að þú skiljir aðeins betur hvað átt er við með skaðaminnkun; en starfsemi frú Ragnheiðar, á vegum Rauða krossins (og að ég held læknanema) er dæmi um slíkt. Einnig dagsetur Hjálpræðishersins á Eyjaslóð. Ég tek heils hugar undir orð Péturs hér að ofan, um kúnstina að reka samfélag sem útskúfar ekki þeim sem lenda í því (eða velja) að fara illa með sjálfa sig, á líkama og sál. En þessum hópi er útskúfað á margan hátt. Eldri borgarar sem fara ekki að reglum á Elliheimilum - hvað á t.d. að gera við þá? Eiga þeir ekki að njóta sömu réttinda og aðrir eldri borgarar? Til að leggja eitthvað jákvætt til umræðunnar gætir þú kannski skýrt betur hvaða úrræði þér finnst að eigi að bíða manna og kvenna sem ekki geta ekki drukkið? Eins og ég sagði að framan hef ég því miður ekki tíma til að bregðast frekar við þeim fordómum sem birtast í innleggi þínu - sem er um leið mikilvægt því það birtir hið úrelta viðhorf í raun og veru svo vel. En eitt get ég sagt þér að fagaðilarnir, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Lögreglan (til að nefna einhver dæmi), hafa fyrir löngu lagt af þann góðtemplara-hugsunarhátt sem birtist í "þau þurfa ekki mannréttindi heldur hjálp"-yfirlýsingu þinni. Þetta snýst um að hvar sem eru manneskjur á ferð, þarf upplýsingar til þeirra um réttindi sín og möguleika, því að þannig læra þau sem eru full sjálfsásakana og sjálfshaturs að bera virðingu fyrir sér sjálfum - jafnvel í fyrsta sinn á ævinni eða eftir áföll sem hafa kippt grunninum undan þeirri heimsmynd sem fólk bjó við áður. Aðgát skal höfð í nærveru sálar; við þekkjum ekki sögu þess sem er óhamingjusamur - og við skulum ekki dæma þá sem passa ekki inn í okkar heimsmynd heldur minnast orða Krists í Matt.25 um okkar minnstu bræður. Í nútímanum og hér á landi mæta menn annarri neyð en þá og þar. Geta gildin kærleiki og manngæska ekki einmitt birst í hreinni nál?
Vertu málsvari
Bestu þakkir Arnaldur Máni fyrir afar gagnlegt og málefnalegt framlag. Hef litlu við það að bæta - við erum einfaldlega sammála um allt sem skiptir máli í þessu sambandi. Bestu þakkir.
Bestu þakkir Arnaldur Máni. Það er áreiðanlega mökkur af fólki syðra sem getur borið þennan málstað betur fram en ég. Fyrsta skrefið er að breyta umræðuhefðinni - orðræðunni eins og nú er í tísku að segja. Ef við stöndum saman og verjum bræður okkar og systur í göturæsinu, hvar sem ógæfa þeirra berst í tal - þá mun umræðan breytast. Þjóðin mun krefjast réttlætis þegar henni verður ranglætið ljóst. Hún mun krefjast mannúðar þegar grimmdin reynist haldlaus. Stöndum saman félagi þó við þekkjumst ekki persónulega. Þú söðlar þinn hest og ég söðla minn hest - berum sjónarmið okkar austur og vestur, norður og suður og þá tekst okkur að laga herfilega skekkju á mannfélaginu.
Eru mannréttindi í dag bara fyrir kínverja?
Gott kvöld þið öll sem hér fylgjast með þessum umræðum um útigangsfólks. Hér ríkur fram á sviðið ungur drengur sem heitir Arnaldur Máni sem hefur svo mikið að gera að hann hefur svo lítinn tíma að svar smá athugasemdum mínum hvað ég hef fram að færa. Hann ríkur fram og fullyrðir að mín skoðun sé bull og þvæla. Þessi sami Arnaldur reynir hvað hann getur að gera lítið úr Samtökum sem heita SÁÁ sem hafa bjargað mörgum fólki sem hefur farið villu vegar. Það eitt skal hann ekki bera á borð fyrir mér, þótt ég hafi ekki enn þurft á þeirra samtökum á að halda enn að sinni. Enn eitt skal ég minna þig á Arnaldur ég þekki nokkur til drykkju fólks og veit það af eiginn raun. Þú skalt ekki vera með þvílíka þvælu þegar þú kallar fólk gamaldag róna sem æti að setja í hverfisteininn sem sé í anda á mínum skrifum. Arnaldur það þarf að tappa loftinu af þér áður enn þú tekur til máls fyrir utan hroka og gera mér upp skoðanir sem ég hef aldrei sagt. Tala svo niður til Eldri Borgara sem fara ekki að reglum á Elliheimilum. Hverskonar yfirgangur er þetta í þér, hvar er minnst á eldra fólk í mínum skrifum. Mér er spurn ert þú ekki heill á geði eða með fulla hugsun, sem reynir eins og rjúpan að verja sitt með litlum árangri enn reynir með kreftum hnefanum að bæla skoðanir niður í fólki sem hefur aðra skoðun enn þú sjálfur Arnaldur. Eitt skaldu hafa í huga með þínum talsmátta og hroka ert þú óhæfur að vera í forsvari fyrir fólk sem á við erfileika að etja. Ég legg það til að þú verðir færður í annað starf, eða sagt upp störfum, því þú sjálfur hefur hvorki vald né þekkingu hvað hér er um að ræða. Ágættu tilheyrendur veit meira. enn læt þennan hroka gikk vera að sinni, enn mun taka á honum ef þörf krefur. Jóhann Páll Símonarson.
Þakka hlý orð Pétur - og verst fyrir þennan málstað að þú sért alla leið norður á Melrakkasléttu. En hjarta og hugur heimsborgarans nær jafn langt og betrireykjavik.is að mér sýnist og er það vel. Ég vona að þessir sólarhringar sem eru til stefnu verði gjöfulir á stuðning við hugmynd þína hér á þessum vef - og heiti liðsinni mínu ef frekari samræðna/viðræðna er þörf fái hugmyndin umfjöllun að loknu þessu ferli - en vona þó innilega fyrst og síðast að þú verðir kallaður suður með hraði, enda þörf á pétrísku andríki til að kitla herra borgarstjórann. Ég upplýsi þó að auki hér að nefnd um málaflokkinn er að störfum á vegum velferðarráðs og kannski eðlilegt að aðilar sem sitja í henni tjái sig um það ferli og þær hugmyndir sem þar eru í gangi á þessum opna og lýðræðislega vettvangi sem hér er kominn í gagnið. Ég bæti ekki frekar við mál mitt hér og nú - en miðað við hvernig mér sýnist vefurinn virka þá ættum við kannski að gauka skeytum inn ef virkni umræðu um hugmynd þína dettur niður. Þá helst hugmyndin á lofti og ofarlega á síðunni um nýjustu virkni vefsins :) - Að lokum, þakka innlegg þitt í DV (á DV.is) og hlakka til að njóta mola af fram- og víðsýni þinni á blogg-vellinum í framtíðinni. kveðja - Arnaldur.
Gerum átak fyrir veturinn strax í dag!
Nei Þórgnýr. Þetta er nákvæmlega sama tillaga óg þú ræddir við mig um á fyrsta degi. Það hafa bæst við rök frá mér og fleirum en ég hef ekki breytt stafkrók frá því ég setti hana inn fyrir rúmri viku. Þú lagðir til að ég breytti titlinum, ég hugleiddi það - en ákvað að halda mig við upphaflega nafnið. Hvers vegna? Vegna þess að tillagan fjallar um mannréttindi útigangs og fíkla í víðum skilningi, ekki einungis um neyðarskýli.
Því miður nær "low threshold" úrræðið íslenska ekki nægilega langt eitt og sér en Dagsetur á Eyjaslóð er vissulega húsaskjól yfir daginn (frá 10-17) þar sem menn og konur komast í mat og hreinlætisaðstöðu, geta lagt sig, geymt eigin föt til skiptanna, fengið nálar osfrv. Því miður getur Hjálpræðisherinn ekki gert meira eins og er - en við getum öll sýnt honum stuðning með því að gefa þangað föt og hluti, með því að versla í verslunum hans eða styrkja starfið með beinni hætti. Úrræði eins og Dagsetrið mættu þó vera meira miðsvæðis, eða á fleiri en einum stað. Jafnvel mættu ákveðnir þættir þjónustunnar vera á stöðum þar sem þessi hópur einn og sér er ekki eini hópur skjólstæðinga. Þjónustumiðstöðvar borgarinnar henta e.t.v. ekki til þess að gefa fólki að borða eða útvega hreinar sprautunálar. En væri hægt að semja við aðra aðila til að vera í samstarfi? Sundkort, súpa og hreinar nálar - í safnaðarheimilum borgarinnar?
Rauðakrosshúsið var vissulega þarft og gott úrræði - það er satt; og eins "Ömmukaffið" sem ungir krakkar sem voru að villast vinalaus niðrí bæ á tíunda áratugnum en það var verkefni á vegum Miðborgarprestsins Jónu Hrannar Bolladóttur og KFUM/KFUK. Pétur segir endurvekjum - og kannski er þarna komið innlegg í aðra umræðu sem hér eykst fylgi jafnt og þétt; en hún varðar framtíð athvarfsins Vin á Hverfisgötu. Kannski mætti nýta það húsnæði (sem Borgin útvegar) á þeim tímum sem það er ekki kaffistofa og frístundahús fyrir geðsjúka, til þess að vera einhverskonar neyðarskýli. Rauðakrosshúsið gamla var dýr eign á besta stað, og þangað fluttu krakkar jafnvel tímabundið sem ekki gátu eða töldu sig ekki geta búið heima hjá sér. Ég er ekki að tala um að önnur hæðin í Vin yrði athvarf á þeim nótum, heldur að kannski sé hægt að tengja einhverja starfsemi neyðarskýlis fyrir unga vímuefnaneytendur við Vin á þeim tímum þar sem a)geðsjúkir eru ekki að nýta aðstöðuna og b) önnur úrræði eru lokuð. Kosturinn við að vera með slíkt á Hverfisgötu er sá að þar með er líka mjög stutt á lögreglustöð ef upp koma vandræði. Ég læt þetta duga í bili - en vona að umræður verði áfram frjóar og miði að lausnum á vandræðum í þessum vandmeðfarna málaflokki. Og þeir sem ekki hafa enn stutt hugmyndina um að borgin tryggi áframhaldandi rekstur á Vin - endilega gerið það!
Það er mín skoðun að þessi mál séu í höndum fagaðila eins og SÁÁ og láta þá sjá um þessi mál. Hinsvegar má drekka á almannafæri þótt lögregulög segja annað. það er nefnilega Reykjavíkurborg sem þarf að setja sínar reglur það er vandamálið. dagdrykkju fólki hefur fjölgað gífulega hratt og þar á meðal eru erlendir aðilar. Allt þetta fólk vantar húsaskjól, mat og annað, enn því miður situr þetta veika fólk á hakanum og verður útundan á meðal okkar. Mér finnst Konukot þar sem konur geta leitað vera til fyrirmyndar, hef sjálfur farið með mikið magn af góðum og hlýjum fötum til þeirra. Þar var ég tekinn fagnandi yndisleg framkoma þeirra sem sjá um þetta, enn stærra húsnæði vantar fyrir konur . Það sama vantar fyrir karlmenn. Það þarf ekkert að flækja málið með umboðmönnum eða öðru. Það vantar reglur og lög sem fólk á að fara eftir og einfalda kerfið. Því það er þungt í vöfum og mikið af snillingum sem þykjast vita meira enn fólkið sjálft. 1. Færum valdið og umsjón yfir til fagaðila. 2. Setjum reglur hvernig meðferð áfengis á almannafæri sé háttað. 3. Styðjum fagaðila að fá viðunandi húsnæði undir sína starfsemi, þar með fyrir konur og karla. 4. þetta snýst ekkert um mannréttindi heldur að hjálpa veiku fólki. Læt þetta duga í bili. Jóhann Páll Símonarson.
Tek undir það Jóhann, alltof margir þykjast vita betur en fólkið sjálft. Því vil ég breyta. Ég hef þekkt drykkjumenn og fíkla á öllum aldri og af ótal gerðum. Enginn getur breytt þeim nema þeir vilji það sjálfir. Kúnstin er að reka samfélag sem útskúfar engum fyrir að fara illa með sjálfan sig - samfélag sem tekur fólki fagnandi þegar það er reiðubúið til að snúa við blaðinu. Samfélag sem er laust við fordóma og útskúfun. Mig langar til að svara röksemdum þínu betur, en hef ekki tök á því að sinni. Bestu þakkir fyrir innleggið.
Vegna athugasemda sem hér hafa verið gerð – sem dæma sig sjálf – vil ég þó ítreka að í þeim umræðuþræði sem vísað var til var hvergi að finna hnjóð um SÁÁ eins og Jóhann heldur fram. Lesist texti minn stendur þar: "SÁÁ er vissulega einn þeirra aðila sem eru hvað mikilvægastir þegar fíkillinn finnur loks tilgang í því að hætta, eða vill reyna, en þau mætu samtök reka þó enga neyðarþjónustu á þeim nótum sem við Pétur erum að auglýsa eftir. Og SÁÁ getur ekki látið þá hætta drekka sem ekki vilja hætta." Ég tel að við séum í eðli okkar það sem við hugsum, gerum – og segjum – t.a.m. á opinberum vettvangi eins og þessum. Það er akkur að því að í umræðukerfinu geti fólk fært frekari rök fyrir því sem sett hefur verið fram svo gagnlegar umræður skapist. Líki fólki ekki ummæli þá getur það sent notandanum einkapóst í stað þess að níða það á opinberum vettvangi. Hafi ég aftur á móti oftúlkað eða misskilið bið ég hlutaðeigandi afsökunar, um leið og ég auglýsi þá eftir málefnalegri skýringu á því sem Jóhann hélt fram í þeim fjórum punktum sem hann tilgreindi og ég túlkaði. Góðar stundir.
Ágætu félagar, Jóhann og hundur. Mér þætti vænt um að fólk léti illyrði um náunga sína ósögð á Betri Reykjavík. Forðum þessum ágæta vef frá því að hljóta sömu örlög og blogg-umhverfið. Ég fagna hins vegar málefnalegum umræðum og tók meðal annars undir málflutning Jóhanns Símonarsonar í fyrsta innleggi hans. Ég er sjálfur ákaflega sáttur við flestöll innlegg Arnaldar Mána og tel ómaklegt að veitast að persónu hans.
Ágæti Jóhann. Ég hef á engan hátt gagnrýnt skoðanir þínar. Enn síður hef ég gert þér um skoðanir. Ég fagnaði fyrsta innleggi þínu og ég tel afar mikilvægt að ólík sjónarmið fái að njóta sín. Ekki síst þau sem ég er ósammála, sem á reyndar ekki við allar röksemdir þínar. Fjarri því. Sumum þeirra er ég ekki fyllilega sammála - en það einungis gott mál. Ég þekki ekki, því miður, til þinna starfa, utan það sem komið hefur fram í innleggjum þínum, en ég þykist sjá að þú búir að reynslu í þessum málaflokki. Þess vegna met ég framlag þitt mikils. Ég bað hins vegar um að Betri Reykjavík verði forðað frá örlögum bloggheimsins og sumpart Fjasbókarinnar - að við sameinumst að sleppa árásum á einstaka samborgara innan þessa stórmerkilega lýræðisvefjar. Takist það ekki mun hann líða undir lok. Tel þetta réttan skilning á notendareglum BR sem ég undirgekkst þegar ég skráði mig. Ég er til dæmis sammála þér um mikilvægi þess að bæta almannafrið í borginni með því að draga úr drykkjulátum á almannafæri. Tel hins vegar hugmyndir um að leysa málið með handafli óráðlegar, enda sé ég ekki að þær séu framkvæmanlegar. Lögreglan getur ekki handtekið tugi, hundruð og jafnvel þúsundir fólks sem spilllir almannafriði og brýtur lögreglusamþykktina. Ég held að við verðum að skoða fleiri leiðir að sama marki. Ég er einnig sammála því að borgin eigi að hafa samstarf við SÁÁ þegar að stefnumótun kemur, þó það nú væri. En það eru sem betur fer fleiri góðir sérfræðingar á Íslandi sem kalla þarf að borðinu. Ég tel reyndar nauðsynlegt leita til erlendra sérfræðinga sem mesta reynslu og þekkingu hafa á skaðaminnkun. Ég tel að dæmin sanni að zero-tolerance afstaða stjórnvalda hafi beðið skipbrot og einmitt þess vegna sé óhemju mikilvægt að kalla eftir nýjum sjónarmiðum frá nýjum aðilum. Það er að mínu vita óskynsamlegt að fela fólki sem mótaði þá ógæfustefnu sem leitt hefur okkur út í fenin að endurskoða eigin verk og stefnu. Sem sagt Jóhann. Skiptumst á skoðunum og fögnum málefnalegum skoðanaágreingi. Bestu kveðjur
Er þetta ekki í annað sinn sem þessi hugmynd kemur inn? Hví er hún ekki kölluð réttu nafni? „Neyðarskýli og þjónustu handa fíklum“.
Að sjálfsögðu á það að vera stefna borgarinnar að engir verði úti þennan veturinn. Sérstaklega ber þó að geta þess að þeir einstaklingar sem urðu úti síðasta vetur höfðu skjól almennt í úrræðum á vegum borgarinnar eftir því sem ég best veit. Það sem kemur endurtekið fram víða í rökum og umræðum um þessa mætu hugmynd er að "neyðarþjónustu" vanti. Gistiskýlið og Konukot eru neyðarskýli af þessum toga, sem þó eru háð bindindisreglu (innanhúss) og því að einstaklingarnir þurfa að vera komnir inn fyrir miðnætti. Félagsráðgjafi á vegum borgarinnar starfar í Dagsetri Hjálpræðishers á Eyjaslóð og þar geta fíklar fengið hreinan sprautubúnað - rétt eins og hjá neyðarþjónustu RauðaKrossins í Frú Ragnheiði. Neyðarskýli þar sem heilbrigðisstarfsfólk kemur og sálfræðiþjónusta er í boði er vissulega göfug hugsjón - en dýr þjónusta sé hún aðkeypt. Kannski þyrfti að taka áhættu og leiða saman ólíka hópa sem væru að nýta þá þjónustu á sama stað? Eða er bannað að blanda utangarðsfólki saman við aðra hópa? Af fenginni reynslu mæta skjólstæðingar úr þessum hópi víða fordómum - en njóti þeir ekki eðlilegs samneytis við aðra hópa verður leið þeirra aftur inn í samfélagið örðug - ef ekki ófær. En sú umræða á betur heima í tengslum við önnur rök í þessu máli og jafnvel í skyldum málum er varða velferð og miðborg.
Þakka öflugan stuðning við tillögu mína
Það sem mér var umhugað um að koma að þegar ég setti þessi rök inn (áður en ég skyldi almennilega hvernig umræðukerfið virkar hér) var að úrræði fyrir eldra drykkjufólk - raunverulegt elliheimili þar sem bindindi væri ekki krafa - vantar. Það á vitanlega við á landsvísu og ætti ekki að vera á ábyrgð Reykjavíkurborgar einnar. Ástæðan fyrir því að ég er að halda þessu til haga er að önnur úrræði "stíflast" ef að hópurinn sem er í mestri neyð (sjúklingar, öryrkjar og ellilífeyrisþegar) komast ekki úr búsetuúrræðum sem hönnuð voru fyrir þá sem hvað lengst höfðu þurft að treysta á Gistiskýlið við Þingholtsstræti eða Konukot. Kumbaravogur var eitt svona "elliheimili" og Víðines annað, á einhverjum tímum í sögunni. Fagaðilar eru sammála um að pressan á kerfinu er meiri eftir að "harðkjarna-úrræði" eins og Byrgið lagðist af; við þurfum ekki annað Byrgi - en á Gistiskýlið þurfa margir menn að treysta mánuðum og jafnvel árum saman! Ef þeir geta ekki hætt að drekka þá geta þeir ekki komist þaðan vegna þeirrar stíflu myndast í úrræðum sem ættu að fleyta mönnum þaðan og e.t.v. með tíð og tíma inn í búsetu á vegum félagslega kerfisins. En ég ætla ekki að útræða mig um þessi mál hér - aðeins skýra yfirskrift rakanna "fjölbreyttari úrræði". Aftur á móti vil ég bæta því við að það er slítandi og ömurlegar aðstæður að vera farinn "að búa á Farsótt" (Gistiskýlið). Þangað koma menn í tilfallandi neyðaraðstæðum og deila þá kannski kjörum ofbeldismenn, nauðstaddir útlendingar og eldri borgarar, nýútkomnir og úrræðalaustir fangar og unglingar sem hafa flúið heimilisaðstæður sínar. Er það boðlegt að þessir ólíku hópar lendi allir saman í einni kös - og að borgin/ríkið hafi engin úrræði önnur í boði (t.a.m. eftirfylgd þegar fangar í neyslu koma aftur úr afplánun út í samfélagið)? Sumt er vel gert - eins vel og hægt er - en allt má bæta!
Hundur ég vona það að þú sér ekki hundur að eðlisfari, enn kennir þig við það nafn. Þín skoðun er rétt og ég tek undir hana. Jóhann Páll Símonarson.
Samkvæmt því sem maður hefur heyrt er mikil óvissa um starfsemi smáhýsanna úti á Granda meðal annars vegna kvartana nágranna osfrv. Þar varð eitt af dauðsföllum síðasta vetrar í þessum hópi. Þar er og ekki alltaf nægilegt eftirlit en vonandi mun sá þrýstingur sem hér kemur fram á lýðræðislegum vettvangi tryggja og bæta áframhaldani starfsemi þar. Vitanlega er mikil samvinna innan þessa geira bæði við SÁÁ, Landspítalann og Samhjálp (m.a. Hlaðgerðarkot) þegar skjólstæðingarnir óska eftir hjálp við að hætta að drekka - þar stendur ekki á viðleitni til að gæta að heilsu og heill margra af þessum einstaklingum þó vonin um árangur sé ekki mikil í ljósi sögu flestra um síendurteknar meðferðir. Vandinn sem við verðum kannski að huga að hér og nú er að hópurinn fer stækkandi sem hafa sótt um úrræði en fá ekki inn í þau. Annað heimili eins og á Njálsgötu væri æskilegt, helst á einni hæð þar sem sjúkraliði væri við störf auk fólks í umönnun/gæslu. Í sambandi við staði eins og Smáhýsin eða Njálsgötu er vandinn sá að undirmönnun kemur í veg fyrir að nægilega mikið sé hægt að huga að bata og eða félagslegri virkni einstaklinganna. Þar mættu fleiri koma að - t.d. sjálfboðaliðasamtök eða kirkjurnar. Ég fagna bara hér með því hverju frumkvæði Péturs virðist ætla skila - en hugmyndin er sem stendur í 4 sæti og ætti að komast inná borð Velferðarráðs í framhaldinu. Til hamingju með betri Reykjavík!
Á gættu tilheyrendur. Pétur þorsteinsson og Hundur hafa hér verið með rök gagnvart útigangsfólki. Ég sjálfur hef staðið í bréfaskriftum fyrir einu ári síðan um stöðu þessa fólks sem á við þennan vanda að etja. Fyrstu svör voru lengi að berast, þegar svarið kom var reynt að komast hjá því að svara enn svarið var ekki benda á mig. Ahugasemd mín var vegna smá hýsa úti á Granda þar sem útigangsfólki var komið fyrir og mörg vandamál sköpuðust í kjölfarið. Þann 17 september 2010 var samþykkt í velferðaráði að auka þjónustu og til stendur að tryggja aðgengi að sólahringþjónustu. Nú veit ég ekki hvort staðið hafa verið við þessi loforð. Enn eitt hefur batnað eftirlit og gæsla hefur verið aukinn, enn samt sá ég í dag fallega unga konu sem vara gat gengið eða vissi hvert hún væri að fara. Enn að lokum fann hún smáhýsin sem betur fer í kulda og vosbúð. Samkvæmt lögregusamþykkt er bönnuð meðferð áfengis á almannafæri á tilteknum stöðum og tilteknum tíma. Enn vilji borgaryfirvalda hefur ekki verið til staðar að koma á reglum og hvernig þessu skuli háttað, þrátt fyrir ábendingar Lögreguyfirvalda að stemma stigum við áfengisneyslu á almannafæri. Þrátt fyrir þessar athugasemdir lögregluyfirvalda hefur ekkert breyst. Það þarf fagfólk frá SÁÁ inn í þetta mál strax. Reykjavíkurborg þarf að hafa samráð við SÁÁ um rekstur og skipulag, hugsanlega þarf að kaupa nýtt húsnæði, bíla, og ýmislegt. Til að hafa skilning verður að taka þessi mál föstum tökum. Kanna verður hvort útlendingum hafi fjölgað og hvers vegna. Hugsanlega að hjálpa þeim að komast heim. Pétur þú þarft ekkert að gera mér upp skoðanir. Ég hef ætíð reynt að tala og skrifa á málefnalega hátt. Enn þegar hugsanlega þinn samtarfsmaður er með þvílík rug og gerir lítið úr öðrum verður því svarað. Hvort þú telur ómaklega vegið ag Arnaldi verður að vera þitt mál. Ekki mitt. Hef margar skoðanir á þessum málum. Því mér sjálfum svíður þegar útigangsfólk hefur ekki húsaskjól og mat. Betri Reykjavík þar eiga skoðanir að vera og þar geta menn tekið til máls, enn ekki menn sem jafnvel eru settir í störf sem þeir valda ekki. Jóhann Páll Símonarson.
Heill og sæll Pétur Þorsteinsson. Ég hef ekki tala hér dólgslega, hins vegar hef ég gert athugasemdir við mann sem þú ert að verja sem mér finnst miður. Eitt ber að hafa í huga ég hef verið með málefnalegar umræður enn mér var svarað með dónalegum skrifum sem ég svaraði og krafðist að hann verði færður til í starfi ef hann starfar að þessum málefnum sem ég vona ekki. Ég læt ekki slá mig út af borðinu með köldum hefna án þess að því verði svarað. Fólk á að sýna öðrum virðingu þótt það sé ekki sanmála eða með aðra skoðun. Þessi vefur það sem ég sé hefur ekki verið misnotaður það er mitt álit. Þú og aðrir verðið að hlusta og taka mark á því sem sagt er þótt það fari fyrir brjóstið á mörgum. það er mín skoðun. Það hafa ekki verið gerðar árasir á neinn svo það sé á hreinu Tek undir með þér skíkast eða annað á ekki að eiga sér stað. Málefnalegar umræður er það sem vantar enn lítið virðist hlustað sé á skoðanir. Áfengisneysla á almannafæri var ég að benda á hvað Reykjavíkurborg hefur staðið sig illa í þeim málum. Pétur ég hef ekki talað um að leysa málið með handafli. Þetta er ekkert annað enn tilbúingur. Ég var að tala um að setja reglur það er annað. Varðandi sérfræðinga. Eigum við ekki nóg af séfræðingum og til hvers að fá erlendan sérfræðing sem kostar þúsundir króna sem mætti setja í þetta vandamál. Tek undir þín orð að ný sjónarmið eiga hjómgrunn. Varðandi að þeir sem mótuðu stefnuna eiga ekki að koma að þessu aftur. Þætti mér vænt að heyra það betur frá þér við hvað þú átt við? Tek undir þín loka orð. Jóhann Páll Símonarson.
Heiðraði Jóhann Páll. Það er miður að þrátt fyrir að þú kjósir að hunsa spurningar mínar, skýra mál þitt betur eða svara einkapóstinum sem ég sendi þér haldir þú áfram að elta ólar við mig á opinberum vettvangi. Síðastliðið laugardagskvöld raukst þú upp með ærumeiðandi skrif - hálfgerðan níð - um persónu mína og heldur áfram að leggja áherslu á að ég hafi verið dónalegur og það eigi að reka mig úr vinnunni minni. Orðum fylgir ábyrgð. Þú virðist í einu og öllu byggja þetta á rangtúlkun orða minna - sem ég hef svarað þér um fyrr - og segir mig á móti SÁÁ sem er alrangt. Báðir túlkum við Pétur orð þín um skýrari lög og reglur sem ákalli eftir því að leysa málið með handafli. Þú neitar því að vera að biðja um það. Viltu útskýra fyrir mér - Jóhann - hvað þú ert þá að biðja um? Er hægt að leysa þann vanda að fólk fari ekki að reglum - með öðru en handafli? Ítrekað hefur þú notað orðfæri sem ekki sæmir hér; um að taka á mér - hér sé eitthvað gert með köldum hnefa - og að þessum "unga dreng" verði svarað! Ef þetta eru ekki hótanir - hvað er þetta þá? Og hversvegna svararðu þá ekki einkapóstinum sem ég sendi þér - en heldur áfram hér á opinberum vettvangi? Því miður virðist eina leiðin til að þú svarir sú að spyrja þig hér - opinberlega. Kveðja - með friðsemd og virðingu. Arnaldur Máni Finnsson
Hlustið á skáldið. Skiljið freistingar næturinnar. Reykjavíkurnætur í den. Við getum ekki reiknað með því að allir sukkarar séu séní eins og Megas. Við getum hins vegar hlustað, hugsað og skilið ungt fólk sem heillast af hættum og töfrum næturinnar. Er ekki tími tilkominn að tengja? http://www.youtube.com/watch?v=xdpTT8U68nc&feature=related
Þakka Arnaldi Mána ný rök - að embætti umboðsmanns utangarðsfólks verði endurvakið. Ég tel það gagnleg rök. Ég tel þó árangursríkara að stofna og styrkja sjálfstæð samtök utangarðsfólks, fíkla og aðstandenda þeirra - og þau samtök fái sömu stöðu gagnvart borg og ríki eins og önnur sjúklingasamtök. Þetta tíðkast víða erlendis og hefur skilað góðum árangri. Við eigum að hætta að tala "um" þennan hóp og "yfir" hann - við eigum að styðja hann til ábyrgðar á eigin lífi og hlusta á hann, án fordóma.
Ég styð það hér að lokum að þetta mál sé ekki aðeins flokkað sem mannréttindamál (sem færi þá fyrir mannréttindanefnd borgarinnar) heldur sem Velferðarmál einnig því að stuðningurinn við tillöguna þarf að heyrast inn á borði Velferðarráðs og jafnvel undir málaflokknum Miðborgin líka. Ég geri ráð fyrir því að Velferðarráð sé hæfasti aðilinn til að takast á við að vinna úr hugmyndinni um að auka framboð skaðaminnkandi úrræða í Reykjavík. Málið snýst um sjálfræði og reisn - en líka um velferðina!
Sérstaklega ber að fagna liðsinni Péturs á þessum vettvangi (og á DV.is) enda djarfur og framsýnn maður! Borgin getur stutt við félagsstarf hagsmunasamtaka - hópurinn (fíklar og utangarðsfólk) er þó þannig samansettur að oftast eru það aðstandendur þeirra sem mynda samtökin en ekki þeir sjálfir. Borgaryfirvöld stofna ekki slík samtök - aftur á móti þá geta þau bætt það starf sem þegar er. Úrræði fyrir eldri borgara í þessum hópi eru brýnt úrlausnarefni auk skaðaminnkunarinnar. Fögnum umræðum!
Það er mikið áhyggjuefni hvað HIV smituðum hefur fjölgað ískyggilega og sú fjölgun er mest í hópi sprautufíkla. Ég tel að virkari heilbrigðisþjónusta, m.a. þjónusta sem gerir fíklum auðveldara að nálgast sprautur ókeypis gæti verið liður í að sporna gegn þessari þróun. Ég veit að þessi þjónusta er þegar veitt en hana þarf greinilega auka enn frekar miðað við þessa fjölgun smitaðra.
Það eina sem mér dettur í hug er að fjölga gistiskýlum og fjölga smáhýsum eins og eru á Granda. Það þarf einnig að koma upp neyðarskýlum með læknishjálp eins og t.d. við alvarlegum fráhvörfum, hreinum sprautum og aðstoð við að búa um sár eða við að ná í sjúkrabíl ef svo ber undir. Neyðarmóttaka vegna kynferðisbrota gæti haft starfsmann þar enda ekki vanþörf á. Svo mætti samvinna vera við t.d. SÁÁ og aðra meðferðaraðila ef fólk vill hjálp við að hætta í neyslu.
HIV faraldurinn hér á sér tæpast hliðstæðu í Vestur-Evrópu á síðari árum. Við erum á báti með pestarbælum í Austur-Evrópu og Mið-Asíu og þar má finna enn hrikalegri dæmi. Portúgal snéri við blaðinu í fíknivörnum um aldamótin, í kjölfar ógurlegs faraldurs sem þar reið yfir. Sama gerðist í Eistlandi. Portúgölum og Eistum hefur tekist að koma skikkanlegum böndum á faraldurinn eftir að þeir skiptu um aðferðir í fíknivörnum. Vonandi tekst okkur það líka með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi.
Það er þjóðarskömm að vera á róli með pestarbælum Austur-Evrópu í smitvörnum meðal sprautufólks. Það er mannréttindabrot að nota ekki þrautreyndar leiðir skaðminnkunar til að verja verst stadda sjúklingahópinn gegn fyrirsjáanlegu HIV fári. Stjórnvöld kusu frekar að berja hópinn til hlýðni - það er áreiðanlega mannréttindabrot að ofsækja hóp fárveikra einstaklinga. Reykjavíkurborg ber hluta ábyrgðarinnar - borgin hafði forgöngu um að innleiða "zero tolerance" vinnubrögð og hugsun undir fána ECAD.
Vel er unnið á ýmsum sviðum í þessum geira sbr. samstarf við Hjálpræðisher og Samhjálp. Starfsstöðvar Rvk.borgar eru Njálsgata 74, Smáhýsin á Granda og Mýrin (f.konur). Í starfslýsingu fyrrum miðborgarprests var kveðið á um að sinna og vera málsvari utangarðsfólks - og var það vel. Ég styð að til þess hæfur einstaklingur, hvort sem hann er trúaður eða gegnir öðrum störfum, hafi hlutastarf hjá borginni við að gæta hagsmuna og bæta lífsgæði utangarðsfólks. Margir bíða úrræða alltof lengi nú þegar!
Það virðist gleymast oft í umræðunni að fíklar og utangarðsfólk er líka fólk og mér finnst að Reykjavíkurborg hafi skyldur gagnvart öllum íbúum sínum ekki bara sumum.
Á undanförnum árum hefur heilbrigðisástandi útigangsfólks; drykkjufólks og annarra fíkla hrakað. Síðasta vetur urðu nokkrir úti á götum borgarinnar. HIV grasserar meðal sprautunotenda og veikari og veikari einstaklingar leita til heilbrigðisþjónustunnar. Útskúfun þessa fólks úr mannlegu félagi er alvarlegt mannréttindabrot. Nauðsynlegt er að koma upp neyðarskýlum fyrir fólk sem ekki er tilbúið til að hætta neyslu og veita því eðlilega heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu, án kröfu um bindindi.
Mannréttindi eru allra, en sumir þurfa stuðning og vernd til að nýta sér þau, eða ekki láta á þau ganga. VIð eigum að búa til margbreytileg úrræði, sem geta breyst, allt eftir ástandi þessa hóps og við eigum að þora að breyta og hugsa nýja hugsun, búa til úrræði, skoða það sem er gert annarsstaðar og vinna náið með mannúðarsamtökum. Þá getur okkur farnast vel.
Víða erlendis er starfrækt "drop-in" heilsugæsla í nærumhverfi útigangsfólks og einst. sem nota sprautubúnað. Opnunartími og þjónusta er miðuð við þarfir jaðarhópanna og er tengd við aðra nærþjónustu sem þau þurfa eins og t.d. mat, húsaskjól, þvottaaðstöðu osfrv. Rannsóknir sýna að slíkir staðir auka líkurnar á að þjónustuþegar haldi lífi, viðhaldi heilsu eða efli heilsufar. En það eru grundvallar mannréttindi að allir hafi aðgang að slíkri heilbrigðisþjónustu.
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation